Lækur
Lækur Hostel & Kaffi Laugalækur
DSCF4649.JPG

Um kaffihúsið

Sjálfbært kaffihús, veitingastaður, bar og gallerí í Laugardal

KAFFI LAUGALÆKUR

Framsækið kaffihús og veitingastaður sem leggur metnað í að bjóða uppá bragðgóðan, hollan og sjálfbæran mat á sanngjörnu verði.

 Sjá nánar:

Við erum staðsett í Laugalæk. Nánar tiltekið Laugarnesvegi 74a. Í húsinu þar sem Verðlistinn var áður.

Umhverfisstefna

Við tileinkum okkur eftirfarandi áherslur í starfsemi Kaffi Laugalækjar:

 • Nýta afurðir beint frá framleiðendum á nærliggjandi svæðum eins og unnt er. 

 • Leitast við að minnka kolefnisspor í starfseminni eins og unnt er.

 • Flokka rusl með endurvinnslu og umhverfisvitund að leiðarljósi, flokka pappír/plast/ál/tré/lífrænan úrgang og losa eftir þeim vistvænu leiðum sem boðið er upp á.

 • Nýta einungis vistvænar hreinsivörur í starfseminni.

Um okkur

Í árslok 2015 fjárfestum við í húsnæðinu þar sem nú er Verðlistinn og einnig hluta hússins á Hrísateigi 47. 
Við opnuðum svo 9. september 2016 fjölskylduvænt kaffihús í húsinu og um veturinn opnar gistihús á efri hæð.
Þetta er samfélagsverkefni sem að standa vinir og fjölskylda. Hörður og Björn eru æskuvinir sem báðir eiga heimili í Laugardalnum. Hörður er nýfluttur í hverfið, en Björn leigir út sitt heimili á Hrísateig því hann býr nú erlendis. Bróðir Björns fjárfestir einnig í verkefninu. Hönnuðir og flestir starfsmenn kaffhússins eru æskuvinir okkar.
Við leggjum mikla áherslu á að skapa vinalega stemningu fyrir alla fjölskylduna. Einnig verður hugað að aðstöðu fyrir hjólafólk og íþróttafólk.
Hverfinu og sögu þess er sýnd mikil virðing í hönnun og starfsemi. Matur er almennt í hollari kantinum með áhersla á hreinleika, umhverfisvernd og norræna framleiðslu. Inni á milli er ætlunin að blanda saman áhugaverðum stefum utan úr heimi.

Hönnun og smíði

 • Kaffihúsið rímar við gróður, laugar og blóm í Laugardalnum, sögu hverfisins og tímabilið sem það byggðist upp.

 • Merkið okkar er fimm kassar raðað eins og gluggarnir utan á húsinu. Leturgerðin sem við notum á skilti og merkjum er í takt við gamalt skrautletur meitlað í stein í Grasagarðinum. Grafísk hönnun tók mið af tímaritum á bilinu 1960-70.

 • Í hverfinu er mikil saga og margt um að vera: Grasagarðurinn, íþróttasvæði, Laugardalslaug, Laugarnes, Listaháskólinn. Í húsinu var Verðlistinn, kvennfatabúð með mikla sögu. Flottar konur áttu búðina og reka hana núna á Suðurlandsbraut. Innviði kaffihússins eru hönnuð í sjötta og sjöunda áratugastíl sem er í takt við byggingarnar og svæðið í kring. Grasagarðurinn var stofnaður 1961, Laugardalslaug var fullgerð 1968, Ásmundarsafn var hannað fram að árinu 1959 og mörg húsin þar í kring reist á þessu tímabili. 

 • Loftljósin koma frá íslensku vinnustofunni Demo handverk. Handgerð af húsgagnasmiðum.  Viðurinn er vottaður frá Finnlandi. Furan er fengin úr náttúrulegum skógi í norður Finnlandi. Bolirnir eru valdir um vetur þegar frost er komið í jörðu því á öðrum tíma er illfært um skóginn vegna mýrlendis.

 • Hönnuðir og arkitektar eru Eva Huld og Magnea Þóra. Grafískur hönnuður er Hrefna Sigurðardóttir. Hönnuðir hússins eru Geirharður Þorsteinsson og Hróbjartur Hróbjartsson.

 • Tréverk í kaffihúsinu er smíðað af tveimur fjölskyldumeðlimum okkar.

 • Víkingatjaldið í barnahorninu er handsmíðað og saumað í fjölskyldunni okkar.

 • Barborðið er steypt á staðnum af fjölskyldumeðlimi.