Lækur
Lækur Hostel & Kaffi Laugalækur
DSCF4731 copy.jpg

Hráefni

Við viljum kaupa íslenska matvöru og þjónustu í hverfinu

Hráefnið okkar

Eldhús

Við fáum afurðir beint frá framleiðendum á nærliggjandi svæðum eins og unnt er. Leitum alltaf að jafnvægi líka á milli þess að hafa mikil gæði frá nærliggjandi framleiðendum og að hafa matinn á viðráðanlegu verði fyrir viðskiptavini.

Við höfum fengið mikið af hráefni til dæmis frá Litlu Gulu Hænunni, Frú Laugu, Pylsumeistaranum og taðreyktan silung frá Geiteyjarströnd í Mývatnssveit.

Þegar færi gefst náum við sjálf í hráefni úr íslenskri náttúru. Til dæmis týndu kokkarnir okkar villisveppi. Hreindýrið sem við vorum með í haust veiddi Óli kokkur. Jurtir, ber og fleira góðgæti sækjum við líka sjálf í náttúruna eins og hægt er. 

Kaffi

Við erum með algjört úrvals kaffi í heimsklassa á Kaffi Laugalæk. Náum því með því að vera einungis með úrvals baunir, efla okkur stöðugt sem kaffibarþjóna og erum bara með bestu tækin. Leitum stöðugt leiða í að halda samræmi í bruggun, læra og prófa nýja hluti. Hjálpa viðskiptavinum að læra um drykkina. Viljum vinna með öðrum í að halda íslenskri kaffimenningu í fremstu röð og sífellt betri. Kaffidrykkja á mann er áætluð sú þriðja hæsta í heiminum á Íslandi (á eftir Finnlandi og Noregi).

Við fáum ristaðar kaffibaunir frá nágrönnum okkar Lúkasi og Rönku í Kaffi Kvörn. Þau fá baunirnar yfirleitt frá bræðrum okkar í Nordic Approach og Cafe Imports. Stöku sinnum erum við með viðbótar úrval frá öðrum kaffibrennslum, innlendum sem erlendum. Nánari upplýsingar um baunirnar hverju sinni má fá hjá okkur í kaffihúsinu eða senda okkur skeyti.

Sem dæmi má nefna að í janúar 2017 vorum við með þrjár baunir frá Kaffi Kvörn: Kunjin PNG (Kunjin Arusha, Papúa Nýja-Gínea), Timbio (Cauca Timbio, Kólumbía) og í uppáhellingu er Cortes frá Níkaragúa. Erlendis frá vorum við með nokkrar eþíópskar baunir frá Knockhouse Supply í Singapúr.

Kaffibaunirnar eru ,,beint frá býli'' í þeim skilningi að við vitum frá hvaða bóndabýli eða -býlum eða samvinnufélagi bænda í tilteknu héraði, tegund kaffiplöntu og vinnsluaðferð. Á ensku heitir það í kaffiheiminum ,,single source'' og þegar kaffið er í úrvals flokki er það ,,speciality coffee''. Við kaupum því ekki sjálfir beint frá bóndanum en það er mjög skýr lína á milli okkar og bóndans: gagnsær heildsali sem kaupir grænar baunir og vinnur náið með bónda (óristaðar baunir kallast grænar baunir), kaffibrennslan kaupir frá heildsala til að rista og selja okkur. Heildsalarnir sem kaffibrennslurnar okkar kaupa frá eru í fremstu röð á heims hvað gæði og gagnsæji varðar, þeir birta heilmikið af upplýsingum á vefsíðum sínum. Við getum líka talað beint við bændurna jafnvel þótt einn milliliður sé á milli okkar ristara og bóndans.

Baunirnar eru alltaf ferskar. Við seljum bara nýristaðar og nýmalaðar baunir.

Til samanburðar þá er venjan í hrávörum á borð við kaffi, og það sem stór vörumerki nota jafnan, að kaupa baunir frá mörgum svæðum, blanda og geta þess ekkert hvaða bændur eru að framleiða þær. Það er einnig oft sem baunir eru ristaðar og svo seldar í langan tíma án þess að gæta þess að þær séu nýristaðar.

Öl og vín

Öl og vín er frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson og Borg Brugghúsi.

Bakstur

Kökur og bakkelsi er að mestu heimabakað af okkar eigin kökugerðameistara og nágranna, Marinó Flóvent. Brauðið í lambaborgaranum kemur einnig frá honum.

Te

Teið okkar er einungis í úrvals flokki og úrvalið er líka mikið. Við fáum mikið af tei frá fjölskyldufyrirtækinu Tefélagið, og einnig kaupum við beint frá tebændum sem við þekkjum og bestu heildsölum í Asíu. Eftirfarandi eru dæmi um te sem við bjóðum en sjá einnig nánar á teseðlinum í kaffihúsinu.

 • Grár jarl (Earl Grey)

 • Kamillute

 • Lakkrís

 • Berja og ávaxta

 • Jasmína grænt te

 • Grænt te

 • Chai te indverskt

 • Piparmynta og grænmynta

 • Drekabrunnur (Dragon Well). Grænt te frá Zheijang héraði í Kína

 • Austurlandafegurð (Oriental Beauty). Úlong te frá Tævan í hæsta gæðaflokki

 • Reykt rautt te (Lapsang Souchong). Rosalega gott reykt te

Te fróðleikur

Það er margt líkt í bruggun á te og kaffi. Huga þarf af magni af tei, hlutfalli af vatni á móti tei, hitastigi vatns, bruggunartíma og smakka til. Uppskriftin er mismunandi eftir því hvaða te er verið að brugga, hvernig laufin eru vafin og hversu gamalt teið er.

Á Kaffi Laugalæk erum við bæði með hefðbundið te búið til úr teplöntunni, og einnig aðrar jurtir. Við erum með þrjár tegundir af teplöntunni: grænt te, úlong og rautt te. Munurinn á milli teflokka liggur helst í því hversu mikið blöðin eru látin gerjast áður en þau eru þurrkuð, úlong er meira gerjað en grænt te. Rautt te er mjög mikið gerjað.

Notað te má nýta í matseld eða sem áburð fyrir plöntur.

Koffín er í teplöntunni og mælist hærra í grænu tei, en þar sem grænt te er bruggað vægar þá er ekki meira kaffín í bolla af grænu tei, og jafnvel minna ef eitthvað er.

Flokkar

Te fellur í eftirfarandi flokka

 1. Grænt - fersk græn unglauf lítið unnin og ekkert gerjuð. Mjög holl. Ljósgrænt tevatn

 2. Hvítt - fersk unglauf látin visna og gerjast örlítið (10-20%) áður en þurrkuð. Mjög holl. Ljósgult tevatn. Hægt að sjá hvít unglauf vafinn inn í teinu ef vel er að gáð.

 3. Gult - gerjuð 15-20%. Ekki vinsæl te. Ljósgult tevatn

 4. Úlong - gerjuð 30-80%. Blóma og ávaxtalykt. Grænt eða ljósbrúnt tevatn.

 5. Rautt - 100% gerjuð. Geta verið bitur og því oft blandað t.d. við sítrónubörk og borið fram í mjólk. Ensk te falla hér undir (Earl Grey, Darjeeling o.fl.). Earl Grey og English Breakfast eru yfirleitt blöndur af mörgum tegundum í lægri gæðum.

 6. Svart - t.d. Puer te. Gerjað 100%. Dökk brúnt eða svart tevatn. Vinsælt meðal tesælkera.

 7. Jurta - te sem ekki er úr teplöntunni. Til dæmis blómate, myntu, ávaxta, berja, lakkrís og kamilla. Koffínlaus.

Yfirleitt má sjá hvaða tegund teið er með því að sjá litinn á vatninu: grænt te er grænt tevatn, gult te er gult tevatn, rautt te er rautt tevatn, svart te er svart tevatn.

Hér er notast við kínverska kerfið sem miðast við litinn á tevatninu. En í enska kerfinu er miðað við litinn á teinu. Sem dæmi um mismun á flokkun á milli kerfa má nefna að Grár Jarl flokkast sem rautt te í kínverska kerfinu en svart í því enska.

Bruggun

Kínverskt te í stakan bolla má setja um 5 grömm ásamt 200 ml af heitu vatni. Dökkt te er bruggað með sjóðandi vatni en ferskara te er bruggað í lægri hita, allt niður í 75 gráður. Bruggun er stöðvuð með því að hella úr tekönnunni og síja í burtu telaufin. Í Kína er bruggað í litlum tepottum og sama teið notað í nokkrar umferðir. Mikilvægt er að taka tímann eða telja í huganum hversu lengi bruggunin er. Í síðari umferð má auka bruggtíma örlítið (t.d. fimm sekúndur) til að fá sama bragð.

Sterkt te (mikið gerjað, úlong, rautt og svart) er yfirleitt snöggskolað með heitu vatni áður en það er bruggað.

Grænt te má ekki bruggast of lengi því þá versnar bragðið. Ef magnið er hóflegt þá má láta úlong og rautt te sitja lengi í katlinum að bruggast.

Ávaxtate þarf ekki að brugga eftir tíma og má því bara sitja áfram í bollanum.

Úlong, rautt og grænt te er hægt að brugga fleiri en eina umferð. En þá þarf að brugga lengur í hverri umferð til að ná sama bragði. Lyktin er best í fyrstu umferð en hverfur svo.

Te á að geyma í dimmu, svölu og þurru lofti. Grænt te geymist í nokkra mánuði, en úlong í allt að 20 ár

Te er hollt. Með mikið af C o.fl. vítamínum, andoxunarefnum, ilmolíum og amínósýrum.

Í Kína er yfirleitt bruggað í tekönnu og drukkið í mjög litlum bollum. Sama teið er bruggað í margar umferðir.

Sagan

Það eru til margs konar teplöntur og ræktaðar á mismunandi svæðum heimsins. Te er yfirleitt ræktað í 800-1200 metrum yfir sjávarmáli.

Teplantan kemur frá suð-vestur Kína og var fyrst notuð i drykki fyrir um 5000 árum síðan. Japanskir munkar tóku hana til Japans á sjöundu öld. Englendingar tóku teplöntuna svo til Indlands a 17. öld. Í dag er Tævan einnig stórt í framleiðslu á te, ásamt Tælandi, Malasíu, Indónesíu og fleiri löndum. Næst Íslandi er te ræktað í Skotlandi.

Te var frá upphafi pressað í kökur og notað sem gjaldmiðill í viðskiptum.

Grænt te er ágætt að brugga í postulíni, en dekkra te er betra að brugga í leirpottum því leir heldur betur hita.

Úlong te heitir á ensku oolong. Úlong þýðir svartur dreki á mandarínsku, en sagan segir að fólk í Fujian héraði í Kína hafi séð svartan snáka í þessari tegund af te tré og kallað plöntuna svartan dreka eftir það.